Færsluflokkur: Bloggar
13.3.2009 | 13:31
Persónukjör vs. Fjórflokkakerfið
Síðast þegar ég bloggaði var ég gjörsamlega með BA-verkefnið mitt á heilanum og er efni bloggsins eftir því. En nú er um það bil hálft ár liðið sem ég hef notað til að þurrka út þessa geðveiki. Er farinn á vinnumarkaðinn. Vinn á leikskóla í Laugardalnum með yngstu krílunum, eins til tveggja ára. Algjör draumur í dós.
En nú eru að koma Alþingiskosningar og eins og margir vita ef til vill kemst strákurinn þá í ham með lyklaborðið og fer að blogga eins og vindurinn. Margt hefur breyst frá síðustu kosningum og hefur fólk verið duglegt að tala illa um fjórflokkakerfið sem að einkennir íslensk stjórnmál á landsvísu. Flokkar eru sakaðir um að fullnægja flokkshagsmunum í stað þess að hafa haf almennings í huga. Margir telja að persónukjör myndi gera að verkum að þingið hugsi um hag almennings í stað hag þriggja eða fjögurra flokka. Þessi umræða hefur verið ákaflega áberandi út um allar trissur. Það hefur meira að segja verið stofnaður stjórnmálaflokkur sem lítur á persónukjör sem einhverja lausn eins kaldhæðnislegt og það hljómar. Bóksalinn Bjarni og presturinn Þórhallur segja að það eina sem sameinar flokkinn sé andstaða við ESB. Annars sé þetta samtínungur fólks úr öllum áttum. Svona flokkar eru ekkert nýjir. Þetta er flokkur sem fjallar bara um einn málaflokk... svona eins Frjálslyndir voru og jafnvel eru. Þessi eini málaflokkur er að Ísland gangi ekki inn í Evrópusambandið. Gott og vel, það er viðhorf sem margir eiga samleið með enda ekki nema rétt helmingur þjóðarinnar sem vill fara í aðildarviðræður við ESB. En þá eiga þessir ágætu leiðtogar flokksins að viðurkenna það.
En svo við förum aftur að ræða um persónukjör og meintan kost þeirra yfir flokkakerfið. Stjórnmálaflokkar hafa hagsmuni að gæta. Við skulum bara viðurkenna það. Þeir starfa eftir ákveðnum hagsmunum þeirra sem styðja flokkinn. Þetta er sameiginlegt með hverjum einsta flokki á þingi. Er svarið persónukjör þar sem að einstaklingar geta boðið sig fram. Hafa einstaklingar semsagt ekki neinna hagsmuna að gæta? Ég er hræddur um það að ef hver einasti þingmaður væri kosinn með persónukjöri samanstæði þingið af 63 smákóngum sem allir legðu áherslu á mismunandi mál. Margir myndu að sjálfsögðu verja sína eigin hagsmuni í stað þess að verja hagsmuni almennings. Hvað eru síðan stjórnmálaflokkar í raun og veru? Stjórnmálaflokkur er hópur fólks sem líklegast hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta. Hópur fólks sem vinnur að sameiginlegu takmarki til að gera líf þeirra aðeins betra, ekki einstaklingar sem vinna að því takmarki að gera líf þeirra bærilegra.
Úff maður er kominn í ham. Það má ef til vill búast við fleiri færslum á næstu dögum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2008 | 15:21
Blogg í samhengi við aðra fjölmiðla
-Ég ætla ekki að skrifa orð um borgarstjórnarskiptin í Reykjavík núna í morgun. Mér er of annt um geðheilsu mína til þess að fylgjast með þeim sandkassaleik og valdabaráttu.
-Ég ætla heldur ekki að skrifa orð um óstöðugleika í efnahagslífinu. Í því máli er ég ekki nógu mikið að mér og aftur... vil ég halda geðheilsunni.
-Ég ætla heldur ekki að skrifa um þá skömm sem ég var vitni að um síðustu helgi þegar ég sá liðið mitt, Val, tapa fyrir fallkandítatana í HK. Það er vegna þess að enn og aftur vil ég halda geðheilsunni.
-Ég ætla ekki að skrifa ábyrgðarlaust um ferðir fyrrverandi borgarstjóra í ölstofur borgarinnar eins í tísku virðist vera á bloggsíðum landans. Ég vil halda trúverðugleika mínum.
Ég heyrði kennara minn í félagsfræðinni í HÍ, Þorbjörn Broddason prófessor, lýsa því í útvarpsviðtali um daginn hvernig fyrri ríkjandi fjölmiðlar, eins og sjónvarpsstöðvarnar, útvarpsstöðvarnar og dagblöðin, eru farnir að bregðast við samkeppni frá bloggsíðum einstaklinga. Bloggarar skrifa texta á bloggsíður sínar á allt annan hátt en þekkst hefur. Líklega má líkja þeim texta frekar við talmál frekar en ritmál þar sem að skrifað er á bráðlátari (spontaneous) og jafnvel ábyrgðarlausari hátt en þekkst hefur. Í textunum fara bloggarar geist í umfjöllun sinni um málefni líðandi stundar, miklu harðneskjulegar en þekkst hefur í öðrum fjölmiðlum. Þessi aðferð til að skrifa texta er forvitnileg og mörgum finnst skemmtilegra að fræðast um málefni líðandi stundar með því að lesa slíkan texta. Þorbjörn segir í útvarpsviðtalinu að fyrri ríkjandi fjölmiðlar séu farnir að bregðast við þessum ¨spontaneous¨ texta bloggara með því að hafa sínar umfjallanir í stíl við bloggin. Fjölmiðlarnir eru jafnvel farnir að líta á bloggin sem öruggar heimildir í fréttaflutningi sínum. Þannig hefur umfjallanir um ferðir Ólafs F. Magnússonar á ölstofur bæjarins sem ef til vill eiga upptök sín á bloggsíðum landans ratað inn í umfjallanir annarra fjölmiðla. Nýr borgarstjóri Reykvíkinga, Hanna Birna Kristjánsdóttir, segir meira að segja að ein ástæða þess að slitið var úr samstarfi Sjálfstæðisflokks og Ólafs F. vera að trúverðugleiki hans sem borgarstjóra hafi farið dvínandi vegna líferni hans utan ráðhússins. (Er það mögulega það sé Hanna Birna, nýi borgarstjórinn okkar, sem að notfærir sér blogg sem örugga heimild í viðtali í ríkisfjölmiðli en ekki fjölmiðillinn sjálfur?) Ólína Þorvarðardóttir, fyrrum skólastýra Menntaskólans á Ísafirði, mótmælir Þorbirni í bloggi sínu og ver sitt fólk, bloggarana. Orðrétt segir hún:
¨Þorbjörn Broddason er háskólakennari í fjölmiðlafræðum, og það er alvarlegt mál ef slíkur maður setur fram hleypidóma af þessu tagi um tiltekinn hóp fólks sem á það eitt sameiginlegt að halda úti bloggsíðum¨ (Birt á bloggsíðu Ólínu Þorvarðardóttur, http://olinathorv.blog.is)
Hún virkar heldur móðguð yfir því að Þorbjörn hafi sagt að það væri tilhneyging bloggara að vera ábyrgðarlausa í sínum skrifum. En blogg sem fjölmiðill býður einmitt upp á það að hægt er að skrifa nánast hvað sem er á ábyrgan og ábyrgðarlausan hátt. Ólína verður að átta sig á að því verður ekki breytt nema með ritstjórnarlegu eftirliti en kostur (og ef til vill galli) bloggs er að hún er ekki fyrir hendi. Hún virðist setja alla bloggara undir sama hatt sem ábyrga þegna lands og þjóðar. Öll bloggin sem finna má á vefnum á fátt annað sameginlegt en að vera birt á annars konar hátt en þekkst hefur í öðrum skrifuðum fjölmiðlum. Efni færslana geta ýmist verið ábyrg eða óábyrg allt eftir því hver skrifar færsluna.
Svo ég tali fyrir sjálfan mig finnst mér dagblöðin einnig hafa brugðist við við bloggi sem fjölmiðil á annan hátt. Allt í einu er hvert einasta dagblað farið að ráða ungt fólk til þess að skrifa bara um hitt og þetta í sérlegum dálkum oftast aftarlega í blöðunum. Ekki fréttir eða fréttatengd efni heldur bara skoðanir þeirra um hitt og þetta. Það fjallar um myrkfælni sína, að það hafi verið að flytja og svo framvegis og framvegis. Hér eru dagblöðin meira að segja farin að bregðast við dagbókafærslur sem margir bloggarar hafa nýtt bloggið til að birta. Merkilegt.
Ólafur F. Magnússon má nú eiga það að hann reyndi með öllum mætti að auka trúverðugleika sinn sem borgarstjóra. Hann fór nefnilega í klippingu, fékk sér ný föt og rakaði sig. Hann lét síðan taka myndir af sér meðborgarstjóramerkið um hálsin. Hann er með á hreinu að lífið er leikrit og til þess að áhorfendur skynji trúverðugleika í fari hans þarf réttu leikmunina og réttu búningana. Hann klikkaði ef til vill á því að trúverðugleikinn felst líka í því hvað fólk segir og hvernig fólk hagar sér. Hann hagaði sér svo sannarlega ekki vel þegar hann myndaði meirihluta í borgarstjórn með Sjálfstæðisflokki án þess að hafa í raun nokkuð umboð borgarbúa eða flokksystkina sinna til þess. Eins og áður sagði ætla ég ekki að fjalla um einkalíf hans og hvort það hafi svert trúverðugleika hans vegna þess að ég veit ekkert um það, hef aldrei séð hann á djamminu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2008 | 23:46
Pælingar varðandi sumardagskrá sjónvarpsstöðvanna
Heil og sæl.
Í síðustu færslu talaði ég um auglýsingaherferð Stöðvar 2 fyrir sumardagskrá sína. Samkvæmt auglýsingu frá stöðinni verður dagskrá stöðvarinnar í júní helgaður ¨sjónvarpsefni fyrir konur¨. Allt í einu varð kvikmyndin Wedding Crasher týpísk ¨stelpumynd¨. Skjár einn brást við samkeppninni með því að koma með svipaða auglýsingaherferð. Nú er þátturinn hans Þorsteins Guðmundssonar, Svalbarði, líka ¨stelpusjónvarpsefni¨. Alveg magnaður skítur. Það skemmtilegasta við þetta er hvernig RÚV bregst við þessu. Þeir auglýsa nú ¨Sjónvarpsdagskrá fyrir alla¨. Maður veltir því fyrir sér hvers vegna Stöð 2 og Skjár einn auglýsir sjónvarpsefnið sitt sem stelpudagskrá. Er þetta viðbrögð við fótboltanum á RÚV? Hafa þeir játað sig sigraða í kapphlaupinu um karlmennina? Eða hefur Skjár einn og Stöð 2 komist að þeirri niðurstöðu að konur horfi það mikið meira á sjónvarp en karlmenn að það borgi sig að auglýsa efni sem stelpuefni svo að þær dragist frekar að þeim? Samkvæmt rannsókn sem við í áfanganum ¨Verkefni í íslenskum fjölmiðlum¨gerðum er mjög lítill munur á áhorfi kynjanna á dagskrár sjónvarpsstöðvanna hjá fólki á aldrinum 18 til 30 ára. Konur horfi lítið eitt meira á sjónvarp á virkum dögum en karlar aðeins meira um helgar. Samkvæmt þeim niðurstöðum er þetta alveg einstaklega vitlaus auglýsingaherferð hjá þessum tveim sjónvarpsstöðvum. Líklegast virkar herferðin letjandi fyrir karlmenn að skipta yfir á Stöð 2 og Skjá einn en þessar tvær stöðvar voru vinsælastar samkvæmt fyrrgreindri rannsókn meðal fólks á aldrinum 18 til 30 ára. Það má geta þess að Skjár einn miðar sjónvarpsefni sitt við fólk einmitt á þessum aldri. Það gera þeir vegna þess að auglýsendurnir, sem Skjár einn er háður, miða við þennan hóp almennings.
Því er það spá mín að þessar tvær stöðvar hríðfalli í áhorfsmælingum í sumar. Það kann þó að vera að tilraunarstarfsemi sé að ræða hjá þessum tveim sjónvarpsstöðvum þar sem að töluvert minna áhorf er á sjónvarp á sumrin. Það grunar mig að minsta kosti.
En nóg um það
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.5.2008 | 18:07
Ekkert jafnrétti á Stöð 2
Hey... hér í þessum töluðu orðum er auglýsing frá Stöð 2 í gangi. Hún byrjar þannig að þulur lýsir dagskránni á Stöð 2 á þessa leið: ¨Enginn fótbolti, bara stelpudagskrá á Stöð 2 í sumar¨. Síðan koma trailerar af sjónvarpsefni sem eru greinilega markaðssett sem sjónvarpsefni fyrir konur. Til dæmis Gray's anatomy. Sem áhugamaður um allskyns kynjafræðileg málefni og....... næstum því félagsfræðingur setur maður spurningamerki við þetta. Ég get ekki séð annað en að gert sé ráð fyrir því að konur geti eða eigi ekki að horfa á fótbolta og strákar geti eða eigi ekki að horfa á ¨stelpusjónvarp¨. Er þetta ekki eitthvað sem feministar eiga að gera athugasemd við? Þarf ekki jafnréttið að ná til beggja kynja? Maður spyr sig.
Fyrsta einkunin er komin. Fékk níu í Velferðarkerfinu. Ekkert smá sáttur. Má til að monta mig :-)
Enn nóg af bloggi í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.4.2008 | 22:51
Koma Valur, stolt Reykjavíkur
Jæja dömur mínar og herrar.
Fimmti titill Vals í meistaraflokki á árinu varð staðreynd í kvöld þegar meistaraflokkur kvenna varð meistari meistaranna eftir sigur á litla systur í Vesturbæ 2-1. Stelpurnar urðu líka Reykjavíkurmeistarar nú fyrir skömmu. Fyrr á árinu hefur meistaraflokkur karla orðið Íslandsmeistari í Futsal og Atlantic cup meistarar. Að auki varð meistaraflokkur karla í handbolta bikarmeistari í handbolta. Meistaraflokkur karla í fótbolta geta bætt tveim bikurum við núna á næstu dögum. Þeir keppa við Fram í úrslitum deildarbikarins og við FH Í meisturum meistaranna.
Ef þetta sýnir ekki yfirburðastöðu Vals í íslensku íþróttalífi þá veit ég ekki hvað. Gefur heldur betur fögur fyrirheit fyrir sumarið.
Kveðja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.4.2008 | 14:08
Ungfrú Reykjavík.....
Ég get nú sagt ykkur eitt. Hér áður fyrr horfðum við félagarnir stundum á fegurðarkeppnir á borð við Ungfrú Reykjavík og Ungfrú Ísland. Ég get alveg tekið undir það að þar með vorum við að hlutgera konur og ýta undir kynjamismun allt það en það er ekki málið, það skiptir engu máli :-). Málið er að ég var alveg ótrúlega naskur á að finna út hvaða stelpa ynni hverja keppni. Leikskólastjórinn úr Eskihlíðinni aka bakvörðurinn og læknisfræðikutinn frá Debrechen aka Eurovisiontöffarinn geta alveg tekið undir það. Þessi spádómsgáfa mín virðist ekkert fara aftur því að eftir að hafa velt hlutunum fyrir mér í smástund í gær á meðan ég horfði með öðru auganu á Ungfrú Reykjavík var ég mað á hreinu hver ynni keppnina. Það kom líka í ljós að stúlkukindin sem að ég hélt að ynni vann. Verst með hvað völvuspáin mín fyrir árið 2008 virðist engan veginn vera að rætast.
Ég hefði til að mynda engan vegin séð fyrir mér að vörubílstjórar tepptu umferð í erg og gríð til þess að fá ráðamenn til þess að lækka eða afnema virðisaukaskatt á bensíni. Virðisaukaskatt sem þessir aðilar fá endurgreitt að mestu leiti ef ég skil rétt. Veit ekki alveg hvað þeir eru að pæla. Hvaða helvíta manni dettur í hug að lækka bensín verð á tímum þar sem að rignir yfir okkur heimsendaspám vegna mengunar af mannavöldum. Mér skilst að bensínverð sé lægra hér en víða annars staðar í Evrópu. Auk þess yrði lækkun á bensínverði þennsluhvetjandi ef eitthvað er að marka Eðlisfræðinginn aka sósíalistann. Eftirtektarvert er að vörubílstjórar virðast hafa valið sér talsmann sem minnir mig stundum á Ralph Wiggum úr Simpsonþáttunum. Þegar hann er spurður út í eitthvað svarar hann eitthverju sem kemur málinu lítið sem ekkert við.
Ég ætla þó ekki verja átök lögreglunnar við vörubílstjórana og einhverja krakka úr Norðlingaholti. Hægt hefði verið að beita valdi við þennan eina sem var að henda steinum og þeim sem voru að kýla lögreglumennina. Ef til vill hefði líka verið hægt að skamma og hringja í foreldra krakkanna sem voru að henda eggjum í átt að lögreglunni. En að beita úða og kylfum á vegferendur er fullmikið...er það ekki. Apinn sem var að öskra á lögregluna í beinni á Stöð 2 hefði mögulega geta fengið tiltal líka.
Kommentið nú endilega krakkar mínir. Mér sýnist á öllu að einungis eðalgellan frá Bolungarvík nenni að kommenta. Þið hin þurfið ekki að vera feimin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.4.2008 | 00:46
Sumarið er tíminn
Ég hef fundið mér sumarvinnu. Ég mun vinna við ritstörf sem rithöfundar minnar eigin BA- ritgerðar. Ég fæ ekkert borgað fyrir þetta starf mitt utan námslána, einungis þá miklu ánægju sem að heimildarvinna og ritunin veita mér. Get ekki beðið. Án nokkurs gríns og glens held ég að þessi ákvörðun sé skynsamleg svo að þessi ritgerð verði alvöru. En þar með vantar mig vinnu þegar líður að haustinu. Þá hafði ég hugsað mér að fara á vinnumarkaðinn í þó nokkurn tíma áður en ég fer hugsanlega í meistaranám. Þegar ég lít yfir atvinnuauglýsingar þessa dagana sé ég að vísu ekkert sem henti mér, félagsfræðingi, neitt sérstaklega. Maður veltir því fyrir sér af hverju maður skellti sér ekki í lögfræði eða viðskiptafræði þar sem að auglýst er töluvert eftir fólki með slíka menntun.
Ég sótti um fréttamannastöðu hjá fréttastofu RÚV (útvarps og sjónvarps) og hjá Fréttablaðinu. Ég komst í annan hluta prófsins hjá RÚV en var ekki einu sinni boðaður í viðtal hjá Fréttablaðinu. Kannski er það bara gott og blessað fyrst að maður er að skrifa ritgerðina. By the way á ritgerðin að fjalla um blogg sem fréttamiðil. Bloggið er nefnilega alveg virkilega áhugaverður miðill þegar lýtur að fréttamennsku þar sem að bloggið er án ritstjórnarstefnu. Blogg er ekki heldur markaðsvara eins og dagblöðin og sjónvarpsstöðvarnar. Þó að ekki sé pláss fyrir umfjöllun um knattspyrnuleik í þriðju deild út á landi í stóru miðlunum geta fjörugar umræður skapast á blogginu. Þar kemur að öðrum merkilegum hlut við bloggið, að það er gagnvirkt. Sérstaklega með athugasemdarkerfinu. Blogg er skemmtilegur miðill sem hefur ekki verið skoðaður mikið með tilliti til fræðimanna og kenningasmiða fjölmiðla- og félagsfræðinnar.
Þannig að sumarið mun einkennast af blankheitum og einhverju fótboltaglápi. Einnig sé ég alveg fyrir mér að ég bloggi töluvert meira heldur en undanfarið. Litlar sem engar líkur verða á neinni utanlandsferð. Úr því reynir maður þó að bæta á næsta ári. Nýtið nú það að bloggið er svona skemmtilega gagnvirkt og kommentið... þó ekki nema til þess að senda manni eins og litla kveðju.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.3.2008 | 20:05
Spá Íslandsmótsins 2008
Heil og sæl. Ég hef löngum þótt vera óþolinmóður maður. Enn eru tveir mánuðir í Íslandsmótið í knattspyrnu en mig langar til þess að koma með litla spá strax. Í ár verða tólf lið í efstu deild í stað tíu eins og síðastliðna áratugi.
1. Valur- Besta lið landsins. Hefur haldið sínum mönnum að mestu leyti. Ef að Barry Smith spilar með þeim verður þetta aldrei spurning.
2. Breiðablik- Liðið spilaði skemmtilegan bolta síðastliðið sumar og hafa bætt við sig markaskorarann Marel Baldvinsson. Eins verður hollenski prinsinn rosalegur í sumar.
3. FH- Eitthvað held ég að fjari undan Hafnfirðingunum í sumar. Heimir skilar þeim þriðja sætið á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari í efstu deild.
4. ÍA- Það verður mikið búist við Skagamönnum í sumar. Þeir eru þó ekki með nógu gott lið til þess að berjast um titilinn. Guðjón á eflaust eftir að taka við einhverju liði út í heimi og nýr þjálfari skilar þeim í fjórða sætið.
5. KR- Ef ég hefði gert þessa spá fyrir mánuði hefði ég sett Vesturbæinga í neðsta sæti. Voru gjörsamlega ömurlegir síðasta sumar. Sá þá síðan spila við Val og spiluðu þeir svo sem ágætlega. Reyndar voru Valsarar að spila hörmulega og KR vann 4-0. Líst vel á Grétar Sigfinn í vörninni. Eins mun Guðjón nokkur Baldvinsson spila sitt fyrsta tímabil í efstu deild. Ég myndi gefa honum eitt tímabil til að festa sig í sessi. Þó tel ég líkur til þess að hann verði jarðaður af stuðningsmönnum Lazio..... nei ég meina KR og mun ekki eiga langa framtíð fyrir höndum hjá KR.
6. Fjölnir- Spútnikliðið í ár. Byrja á því að vinna þó nokkur og verða á toppnum eftir svona fimm umferðir. Eftir hálft mótið fara þeir að dala og tapa fjórum eða fimm síðustu leikjunum sínum.
7. Keflavík- Það er orðið lögmál að Keflavík byrji vel en dali síðan. Minnir mig á Newcastle um miðja síðasta áratug. Þeir verða, líkt og Fjölnir, ofarlega hálft mótið og fara síðan að dala.
8. Fylkir- Fylkismenn verða skítsæmilegir. Vinna örugglega liðin fyrir neðan þá og stela eitt og eitt stig af efstu liðunum, Val, Breiðablik og FH.
9. Fram- Það þarf að skapa stemningu hjá Fram. Ég get ekki séð annað en öll umgjörð kringum knattspyrnuliðið sé steindauð. Verða að fara að spila á velli þar sem möguleiki er fyrir stuðningsmenn til að þjappa sér saman og styðja sitt lið í blíðu og stríðu. Völsurum tókst það á síðasta tímabili og ég hugsa að Framararnir séu fjölmennir, nenna bara ekki á völlinn. Þeir eru með nógu góða leikmenn til að skila þeim níunda sætinu en góð umgjörð getur skilað þeim hærra á töflunni.
10. Þróttur- Þetta verður erfitt tímabil fyrir Þrótt og verða þeir í harðri fallbaráttu við HK og sérstaklega Grindavík. Hjörtur Hjartarson skorar í lokaumferðinni á móti Grindavík í sigurleik 1-0. og þar með fellur Grindavík en ekki Þróttur.
11. Grindavík- Þeir hafa misst ákveðna hlekki. Skrýtið að yfirgefa lið sem vinnur sér sæti í efstu deild. En það hafa menn gert.
12. HK- Það var ljómi yfir HK í sumar og spiluðu þeir yfir getu. Ljóminn fölnar í sumar og spila þeir þá eftir getu. Verða á botninum í allt sumar.
Þetta er nokkuð öruggt og óþarft að spila leikina.
Besti leikmaður verður Baldur Ingimar Aðalsteinsson hjá Val.
Efnilegastur verður Björn Bergmann hjá ÍA.
Sjáið bara til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.3.2008 | 23:29
Nafnlausa eyjan
Ætli það sé ekki kominn tími til þess að skrifa nokkrar línur. Ég efast ekki um það.
Ég hef verið að velta einum hlut fyrir mér í nokkurn tíma. Eitthvað sem ég er ekki viss um að allir hafa pælt í. Eitthvað sem er of nálægt veruleika okkar til þess að við sjáum það. Sko.... Færeyjar er samansafn af eyjum sem eiga sér öll nöfn. Ísland er líka ekki bara eyja heldur eyjur. Það er hellingur af eyjum í kringum stóru eyjuna sem við flest búum í. Þessar litlar eyjar í kring eiga sér nöfn eins og Papey, Flatey, Viðey, Grímsey, Heimaey og svo framvegis. Þær tilheyra hins vegar allar Íslandi. Hvað með stóru eyjunni sem við búum flest í. Heitir hún ekki neitt? Af hverju meiga eyjur í kring eiga sér nöfn en vera samt hluti af Íslandi en ekki stóra eyjan okkar? Mér finnst að fólk ætti að velta þessu fyrir sér.
Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í Friðrik Ómar sem hefur verið bitbein manna í bloggsíðum landans. Ætla bara að segja eftirfarandi: Maðurinn er barn. Hann ber öll einkenni barns. Hann lendir í öðru sæti í Söngvakeppni Sjónvarpsins í fyrra, fer í fýlu, fellir tár og segir að hann ætli sko aldrei að hætta fyrr en hann vinni. Þegar hann loksins vinnur núir hann því um nasir þeirra sem tapa. Ég er hræddur um að hann hafi verið einn af þeim sem fóru að gráta í æsku ef hann tapaði í fótbolta. Án þess að þetta mat mitt á manninum hafi nokkur áhrif á því hvernig mér finnst þetta blessaða lag vera finnst mér það hálfgerð froða. Sé það ekki eiga nokkurn séns á að komast áfram. Ég vonaði að Dr. Spock ynni. Þeig hefðu sennilegast vakið nógu mikla athygli og komist áfram.
En nóg af því. Ég fer nú að vera duglegri í að blogga. Lofa því. Hef þetta ekki lengra í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.1.2008 | 18:04
Líf og fjör í Ráðhúsinu
Í dag hafa sjálfstæðismenn í Reykjavík verið duglegir að kalla mótmælin í Ráðhúsi Reykjavíkur skrílslæti óþroskaðra aðila sem reyna brjóta niður lýðræðið. Mótmæli sem hafna alveg ótrúlegum vinnubrögðum Sjálfstæðisflokksins sem einkennist af endalausum hroka og leiðindum. Ég mætti einmitt upp í ráðhús eftir tíma upp í Háskóla vegna þess að eins og svo mörgum öðrum Reykvíkingum blöskrar mér framkoma Sjálfstæðisflokksins og Ólafs F. Magnússonar.
Sjálfstæðismenn líkja þessu ástandi við það ástand sem ríkti fyrir rúmum þrem mánuðum síðan þegar hinn svokallaði Tjarnarkvartett tók við stjórn í borginni. Aðstæðurnar þá voru þannig að Sjálfstæðismenn höfðu í raun og veru lýst vantrausti við Vilhjálm borgarstjóra sem hafði gjörsamlega klúðrað einhverju ofmetnu REI-máli sem enginn skilur alveg almennilega. Ekki nóg með að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks höfðu hist til þess að baktala Vilhjálm því að nú mátti Björn Ingi Hrafnsson, fulltrúa Framsóknarflokks ekki vera með á fundum. Gamla borgarstjórnin var tvíklofinn og er það enn. Kannski er búið að líma hann saman með trélími en það endist aldrei alveg almennilega. Eðli málsins samkvæmt gafst Björn Ingi upp og hafði væntanlega samband við Dag B., Svandísi Svavars og Margréti Sverris. Úr því varð til hinn svokallaði Tjarnarkvartett með Dag B. sem borgarstjóra.
Og nú er sami brothætti Sjálfstæðisflokkurinn kominn til valda með því að freista veikasta hlekk kvartettsins. Er fólk ekki alveg örugglega að átta sig á því að þetta er sami Sjálfstæðisflokkur, sömu menn og hrökkluðust frá völdum vegna þess að hann var sprunginn að innan? Það græðir enginn á svona framkomu. Sjálfstæðismenn eru líklegast búnir að missa Samfylkinguna allt og langt frá sér samkvæmt skoðunarkönnunum og ekki nokkur maður treystir nýjum borgarstjóra. Ekki einu sinni þessu skitnu tíu prósent sem kusu flokkinn hans. Ef að það er ekki algjör misnotkun á lýðræðinu þá veit ég ekki hvað. Hvar á byggðu bóli er einstaklingur með 10 prósent atkvæðabærra manna á bak við sig í leiðtogahlutverki? Og Sjálfstæðismenn kalla þá sem leyfa sér að mótmæla þessarri þvælu lýðskrumara!
Er fólk ekki komið með leið á þessu? Er ekki kominn tími til að taka okkur aðrar þjóðir til fyrirmyndar? Aðeins á Íslandi gæti það mögulega gerst að flokkur kæmist mögulega upp með þetta en undiraldan í Reykjavík er einfaldlega of sterk. Ég er stoltur af þessu unga fólki sem gerðu sér ferð í Ráðhúsið til að mótmæla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)