6.3.2007 | 15:51
Fangelsin í Ameríkunni (frjálsa landinu)
Á milli þess sem ég horfi á Seinfeld, House og Boston Legal horfi ég á fréttatengt efni eins og Kastljós. Í gær sá ég viðtal Sigmars Guðmundssonar við Íslending nokkurn sem hafði setið í rammgirtu fangelsi í Virginiufylki í Bandaríkjunum ef ég man rétt. Allavega var um að ræða eina fangelsi fylkisins sem tekur mannslíf. Dómstóllinn þar hefur tekið sér þann ákvörðunarrétt hverjir skulu hafa rétt á því að lifa og hverjir ekki, eins hrokafullt og það hljómar, í trúræknasta ríki vesturlanda, Bandaríkjunum. Íslendingar þessi hafði fengið 20 ára dóm fyrir að slá mann með hafnaboltakylfu og taka veskið hans. Morðingi á Íslandi fær ekki meira en 16 ára dóm sama hversu hroðalega morðið var framkvæmt. En hvers vegna er þetta svona ólíkt í Bandaríkjunum og á Íslandi. Í Bandaríkjunum hefur fólk fyrirfram gefist upp á fólki sem fremur glæpi. Fagelsin eru hugsuð sem refsivist í stað þess að vera hugsuð sem betrunarvist eins og víðast í Skandinavíu, löndunum sem við berum okkur saman við. Bandaríska dómskerfið gerir ráð fyrir að glæpamenn fæðist glæpamenn og deyji glæpamenn. Þeir skulu vera haldnir frá almenningi eins mikið og eins lengi og hugsast getur. Skandinavar, þar á meðal Íslendingar, höldum okkur við þá trú að glæpamenn geti breyst. Við einbeitum okkur að því að breyta þeim í stað þess að refsa þeim. Hér á Íslandi heyrir maður oft gagnrýni á dómskerfið sem er svosem réttlætanlegt. En oft er gagnrýnin byggð á samanburði á bandaríska fangakerfinu, með sína áratugafangelsisvistun og dauðrefsingar, sem við sjáum í sjónvarpsþáttum og 10-16 ára fangelsisvistun fyrir morð á Íslandi. Þetta er ekki samanburðarhæft þar sem að þessu leyti eru menningarnar gjörólíkar. Vissulega finnst mér persónulega margir dómar, fyrir til dæmis kynferðisafbrot, vera of lágir. En það ætti að vera byggt á þeirri trú minni að ég held að það taki lengri tíma að breyta kynferðisbrotamönnum en dómurinn segir til um. Ég hef heyrt að stóra fangelsið á Íslandi, Litla Hraun, sé erfitt að lýsa sem staður sem betrunarvist fer fram. Litla Hraun er því nær bandaríska módelinu en því skandinavíska. Ég spyr hvort að það sé sú leið sem við viljum. Í dag er dómsmálaráðherran okkar afskaplega hlynntur Bandaríkjunum í flestum málum án þess að ég viti hvar hann standi í þessum málum. En ef hann er hlynntur bandaríska módelinu er líklega ekkert að fara að gerast í betrunbótum í Hrauninu. Viljum við það? Viljum við kannski bara annan dómsmálaráðherra úr annarri ríkisstjórn, velferðarríkisstjórn?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.