21.8.2008 | 15:21
Blogg í samhengi við aðra fjölmiðla
-Ég ætla ekki að skrifa orð um borgarstjórnarskiptin í Reykjavík núna í morgun. Mér er of annt um geðheilsu mína til þess að fylgjast með þeim sandkassaleik og valdabaráttu.
-Ég ætla heldur ekki að skrifa orð um óstöðugleika í efnahagslífinu. Í því máli er ég ekki nógu mikið að mér og aftur... vil ég halda geðheilsunni.
-Ég ætla heldur ekki að skrifa um þá skömm sem ég var vitni að um síðustu helgi þegar ég sá liðið mitt, Val, tapa fyrir fallkandítatana í HK. Það er vegna þess að enn og aftur vil ég halda geðheilsunni.
-Ég ætla ekki að skrifa ábyrgðarlaust um ferðir fyrrverandi borgarstjóra í ölstofur borgarinnar eins í tísku virðist vera á bloggsíðum landans. Ég vil halda trúverðugleika mínum.
Ég heyrði kennara minn í félagsfræðinni í HÍ, Þorbjörn Broddason prófessor, lýsa því í útvarpsviðtali um daginn hvernig fyrri ríkjandi fjölmiðlar, eins og sjónvarpsstöðvarnar, útvarpsstöðvarnar og dagblöðin, eru farnir að bregðast við samkeppni frá bloggsíðum einstaklinga. Bloggarar skrifa texta á bloggsíður sínar á allt annan hátt en þekkst hefur. Líklega má líkja þeim texta frekar við talmál frekar en ritmál þar sem að skrifað er á bráðlátari (spontaneous) og jafnvel ábyrgðarlausari hátt en þekkst hefur. Í textunum fara bloggarar geist í umfjöllun sinni um málefni líðandi stundar, miklu harðneskjulegar en þekkst hefur í öðrum fjölmiðlum. Þessi aðferð til að skrifa texta er forvitnileg og mörgum finnst skemmtilegra að fræðast um málefni líðandi stundar með því að lesa slíkan texta. Þorbjörn segir í útvarpsviðtalinu að fyrri ríkjandi fjölmiðlar séu farnir að bregðast við þessum ¨spontaneous¨ texta bloggara með því að hafa sínar umfjallanir í stíl við bloggin. Fjölmiðlarnir eru jafnvel farnir að líta á bloggin sem öruggar heimildir í fréttaflutningi sínum. Þannig hefur umfjallanir um ferðir Ólafs F. Magnússonar á ölstofur bæjarins sem ef til vill eiga upptök sín á bloggsíðum landans ratað inn í umfjallanir annarra fjölmiðla. Nýr borgarstjóri Reykvíkinga, Hanna Birna Kristjánsdóttir, segir meira að segja að ein ástæða þess að slitið var úr samstarfi Sjálfstæðisflokks og Ólafs F. vera að trúverðugleiki hans sem borgarstjóra hafi farið dvínandi vegna líferni hans utan ráðhússins. (Er það mögulega það sé Hanna Birna, nýi borgarstjórinn okkar, sem að notfærir sér blogg sem örugga heimild í viðtali í ríkisfjölmiðli en ekki fjölmiðillinn sjálfur?) Ólína Þorvarðardóttir, fyrrum skólastýra Menntaskólans á Ísafirði, mótmælir Þorbirni í bloggi sínu og ver sitt fólk, bloggarana. Orðrétt segir hún:
¨Þorbjörn Broddason er háskólakennari í fjölmiðlafræðum, og það er alvarlegt mál ef slíkur maður setur fram hleypidóma af þessu tagi um tiltekinn hóp fólks sem á það eitt sameiginlegt að halda úti bloggsíðum¨ (Birt á bloggsíðu Ólínu Þorvarðardóttur, http://olinathorv.blog.is)
Hún virkar heldur móðguð yfir því að Þorbjörn hafi sagt að það væri tilhneyging bloggara að vera ábyrgðarlausa í sínum skrifum. En blogg sem fjölmiðill býður einmitt upp á það að hægt er að skrifa nánast hvað sem er á ábyrgan og ábyrgðarlausan hátt. Ólína verður að átta sig á að því verður ekki breytt nema með ritstjórnarlegu eftirliti en kostur (og ef til vill galli) bloggs er að hún er ekki fyrir hendi. Hún virðist setja alla bloggara undir sama hatt sem ábyrga þegna lands og þjóðar. Öll bloggin sem finna má á vefnum á fátt annað sameginlegt en að vera birt á annars konar hátt en þekkst hefur í öðrum skrifuðum fjölmiðlum. Efni færslana geta ýmist verið ábyrg eða óábyrg allt eftir því hver skrifar færsluna.
Svo ég tali fyrir sjálfan mig finnst mér dagblöðin einnig hafa brugðist við við bloggi sem fjölmiðil á annan hátt. Allt í einu er hvert einasta dagblað farið að ráða ungt fólk til þess að skrifa bara um hitt og þetta í sérlegum dálkum oftast aftarlega í blöðunum. Ekki fréttir eða fréttatengd efni heldur bara skoðanir þeirra um hitt og þetta. Það fjallar um myrkfælni sína, að það hafi verið að flytja og svo framvegis og framvegis. Hér eru dagblöðin meira að segja farin að bregðast við dagbókafærslur sem margir bloggarar hafa nýtt bloggið til að birta. Merkilegt.
Ólafur F. Magnússon má nú eiga það að hann reyndi með öllum mætti að auka trúverðugleika sinn sem borgarstjóra. Hann fór nefnilega í klippingu, fékk sér ný föt og rakaði sig. Hann lét síðan taka myndir af sér meðborgarstjóramerkið um hálsin. Hann er með á hreinu að lífið er leikrit og til þess að áhorfendur skynji trúverðugleika í fari hans þarf réttu leikmunina og réttu búningana. Hann klikkaði ef til vill á því að trúverðugleikinn felst líka í því hvað fólk segir og hvernig fólk hagar sér. Hann hagaði sér svo sannarlega ekki vel þegar hann myndaði meirihluta í borgarstjórn með Sjálfstæðisflokki án þess að hafa í raun nokkuð umboð borgarbúa eða flokksystkina sinna til þess. Eins og áður sagði ætla ég ekki að fjalla um einkalíf hans og hvort það hafi svert trúverðugleika hans vegna þess að ég veit ekkert um það, hef aldrei séð hann á djamminu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.