Næstsætasta stelpan er norsk.

    Jæja, næstsætasta stelpan á ballinu er víst norsk að mati ríkisstjórnarinnar. Við erum að fá norskan her í landið ef ég skil rétt. En hann á bara að verja okkur á friðartímum. Er ég eitthvað að misskilja en er líklegt að nokkuð gerist á friðartímum. Og ef að stríð byrjar í Evrópu..... á hann þá bara að fara. Því að hann á bara að vera hér á friðartímum. Á þessi her bara að vera hérna til skrauts. Get ekki með nokkru móti skilið þetta. Vinstri grænir eru þeir einu sem sjá þessu eitthvað til fyrirstöðu og ég verða eigilega að vera sammála þeim en ekki Samfylkingu í þetta skipti. Ég sá Sigurð Kára, þingmann Sjálfstæðisflokksins réttlæta þetta um daginn með þeim rökum að Norðmennirnir myndu vera okkur hjálplegir í björgunarflugum og svo framvegis. En er þá hægt að kalla þennan samning varnarsamning? Kannski varnarsamning gagnvart náttúruöflunum þá eða...?  Hermennirnir eiga víst að veita okkur ómetanlega reynslu. Í hverju... að stunda hermennsku eða bjarga fólki úr sjávarháska? Mér finnst þingmaðurinn þarna hafa verið að setja undir sama hatt hermennsku og björgunarmennsku. Starf hermanna er að myrða fólk. Starf björgunarliða er meðal annars að bjarga lífi fólks. Bandaríkjamennirnir sem voru hér voru okkur ómetanleg aðstoð í sínum tíma til þess að bjarga fólki úr sjávarháska en heldur fólk í alvöru að við Íslendingar séum svo vanþróaðir og vitlausir að við getum ekki séð um þetta sjálf. Við getum lært af Norðmönnum með því að skoða aðferðir þeirra við björgun annars staðar. Viljum við vera þjóð með her..... en bara á friðartímum. Datt engum í hug samningur við heri á Norðurlöndum, Evrópusambandið eða NATO um varnir landsins á ófriðartímum til áratuga, jafnvel 100 ára. Ég læt vera að líkja þessu við Gamla sáttmála eða blanda fiskveiðideilur í umræðuna, ég hefði sagt nákvæmlega það sama ef þetta væri her frá einhverju öðru landi. 

Íslenska krónan hrekur fyrirtæki úr landi?

    Ég hló upphátt um daginn við það að hlusta á Rás eitt. Það gerist nánast aldrei. Rás eitt hefur jú hefur ekki gert út á hláturinn en þeim tókst það. Það var Jón Sigurðsson framsóknarmaður sem kom með skemmtiatriði. Framsóknarflokknum gengur illa í könnunum af því að aðferðafræðin er fjandsamleg Framsóknarflokknum. Stefán Ólafsson félagsfræðiprófessor hefur bent á það hvernig fátækt fólk á landinu er skilið eftir í skítnum á meðan þeir ríkari verða ríkari með skattkerfi sem hampar þeim ríkari. Ég tók strætó í dag. Þegar ég tek strætó hugsa ég. Ég hugsaði með mér af hverju fólk með hámarkstekjur hræðast skatta eins og Birkir Már hræðist geitunga. Þetta er fólkið sem á pening og munu áfram eiga pening eftir skatt. Í stað þess er fólk með 150.000 kr í laun með undir 100 þúsund kallinum í ráðstöfunarstekjur. Það er hægt að flækja þetta en í raun er þetta svona einfalt. Ég lýsi ennþá eftir því að fjölmiðlar spurji íslensku fjárfestana hvort þeir muni flytja fyrirtæki sín úr landi ef að fjármagnstekjuskattar og tekjuskattar fyrirtækja hækka. Björgólfur Thor úr Straumi Burðarás vill evruna, Samfylkingin vill evruna. Bjarni Ármanns úr Glitni vill afnema launaleynd, Samfylkingin vill afnema launaleynd. Getur verið að Sjálfstæðisflokkurinn sé að hrekja fyrirtæki úr landi....sem á víst að gerast ef Samfylkingin og VG komast í stjórn?

Svekkelsi á svekkelsi ofan

Það er alllangt síðan ég hef vippað færslu hér á vefinn og kominn tími til. 

Hvað get ég talað um. Almenningur virðist snúa baki við jafnaðarstefnuna almennt miðað við síðustu skoðanakannanir. Alveg ótrúlegt, fólk virðist bara vilja annað hvort Hægristefnu eða Vinstristefnu. gEkki skynsamt blandað hagkerfi sem útilokar öfgastefnum. Æi, ég nenni ekki einu sinni að vera að svekkja mig yfir þessu. Ég fór á samkundu um dainn þar sem ungt Samfylkingafólk safnaðist saman og hlustuðu á nokkra frambjóðendur segja nokkur orð. Þar sagði Guðmundur nokkur Steingrímsson orð sem fékk mig til að pæla svolítið í hlutunum. Hvað ef það hefði verið Ingibjörg Sólrún og Össur Skarphéðins sem hefðu ein staðið bak við það að setja Ísland á lista yfir stuðningsþjóðir USA í innrásinni í Írak og þar með notað aðferðir einræðisríkja. Væri þá Samfylkingin með 35-40 prósent fylgi eins og Sjálfstæðisflokkurinn. Eins má velta fyrir sér ef að Samfylkingin hafi staðið í lögsóknum við Öryrkjabandalagið og félag ellilífeyrisþega? Væru Samfylkingin þá kannski með þetta sama 35- 40 prósenta fylgi. Ég vil ekki trúa því að ríkisstjórnin haldi velli. Vonandi breytist eitthvað í kjölfar landsfundarins sem er í fullum gangi núna. 

Ef ekki munu þjóðarhagsmunir tapa og sérhagsmunir vinna þann 12. maí. Þá er ég að tala um alþingiskosningarnar.....ekki Eurovision.


Viltu flýja til Danmerkur eftir kosningar?

Sumar skoðanakannanir sýna að ríkisstjórnin sé hugsanlega á leiðinni að halda velli eftir kosningar. Ef að það gerist skil ég ósköp vel að fólk fari að hugsa sinn gang varðandi framtíð sína í þjóðfélaginu. Sumir vilja ganga lengra en aðrir. Þeir sem lengst vilja ganga vilja ef til vill ekkert búa á landinu. 

Hér má skoða það hvernig maður stendur vilji maður verða danskur ríkisborgari. Við erum að tala um 40 spurningar og maður verður að svara allavega 28 rétt. Ég tók prófið og hafði 24 rétt svör. 

Þetta er allt að koma. 


Hvað er málið með þungaiðnað?

Meirihluti Hafnfirðinga áttuðu sig á því að framtíð bæjarins byggist ekki á álverum eða þungaiðnaði. Þrátt fyrir hræðsluáróðri um að atvinnuleysi yrði umtalsvert og bærinn yrði rjúkandi rúst ef álverið í Straumsvík yrði ekki stækkað. Þetta er ekki ólík bölsýn og maður fékk að heyra þegar minst var á það að herinn á Miðnesheiði færi. Nema þá átti Keflavík að verða að engu vegna atvinnuleysis. Fjöldi fyrirtækja sem tengir sig við þekkingariðnað hafa tekið sér bólfestu í Firðinum. Þar ber helst að nefna Actavis. Pláss fyrir enn fleiri slík fyrirtæki verða ef að álverið í Straumsvík verður ekki stækkað. Enn og aftur segi ég að það er líf fyrir utan álver.... eða varnarlið. Verð eigilega alltaf jafn hissa þegar við þeir sem voru á móti því að reist yrði virkjun fyrir álver fyrir austan eru nánast stimplaðir sem sem óvinir Austurlands og á móti framþróun á því svæði. Ætli ég yrði ekki barasta kallaður skítugur malbikagutta að sunnan ef ég myndi opna munninn um þetta málefni af fólkinu að austan. Einu sinni heyrði ég haldið fram af ágætum náunga úr sveitinni að allir þeir sem voru á móti þeirri virkjun væri taldir öfga náttúruverndarsinnar. Þeir sem þekkja mig vita að ég get ekki verið talist vera öfganáttúruverndarsinni vil bara fara aðrar leiðir í byggðarmálum.

Stórkostlegt að heyra í fréttum í gær að 65 prósent landsmanna vildu tala hlé frá frekari þungaiðnaði næstu fimm árin. Þið athugið að allt þetta fólk vill hlé, frestun á frekari þungaiðnað. Nákvæmlega það sem Samfylkingin gerir ráð fyrir komist þeir í ríkisstjórn miðað við ¨Fagra Ísland¨. Ekki útilokun um allar aldir eins og VG vilja heldur hlé. Ef að náttúruvernd verður stórt kosningamál ætti Sf að gera góða hluti. Persónulega vona ég eigilega frekar að velferðarmál verði allavega jafnstórt mál og náttúruvernd en ætli þetta verði ekki eins og alltaf. Sjálfstæðisflokkur lofar skattalækkunum og fær milli 35 og 40 prósent fylgi. Hvað er málið með skattalækkanir og þennan eilífa ótta við að borga svolitla skatta. Ef að lofa á skattalækkunum fyrir okkur venjulega fólkið þarf að hækka fjármagnstekjuskatta elítunnar. Þætti gaman að spurja Jón Ásgeir, Hannes Smára og þessa karla hvort þeir myndu í raun flytja fyrirtæki sín úr landi ef að þessi fjármagnstekjuskattur yrði hækkaður í kannski 18 til 20 prósent. Vona að þetta komi fram einhverntíman í kosningabaráttunni. 


Það eru ekki allir white trash í Washington DC... bara forsetinn.

Haldið þið að maður sé ekki kominn aftur á klakann eftir mjög svo skemmtilega viku í Washington DC sem einkenndist af niðurgöngum, lögregluskinkum, Justin Case og indverskum leigubílstjóra sem var greinilega ekki annt um líf okkar. Þeir skilja sem eiga að skilja. Ferðin heim tókst prýðilega, svaf mest alla ferðina á milli þess sem ég vældi yfir því að geta ekki hallað sætinu mínu. Lenti í þeirri pirrandi aðstöðu að geta ekki hallað sæti í sex tíma næturflugi. Komst seinna að því að ég var ekki með símann minn þannig að það gengur lítið að reyna að hringja í gemsann minn. En þar sem að ég er vissulega með skapbetri mönnum svona yfirleitt hef ég ekki kippt mér mikið upp úr þessu.  En í heildina séð held ég að fordómar gagnvart hinum almenna Bandaríkjamanni hafi dofnað mikið. Allavega hittum við ekki einn Bandaríkjamann í Washington sem var hlyntur stefnu Bush. Hittum reyndar einn Íslending sem var frekar hlynntur honum. Hann heitir Albert Jónsson og er sendiherra Íslands í Washington DC. En fólkið er hrætt, alveg rosalega hrætt. Ég hef áður bloggað um síkret eitjentina fyrir framan Hvíta húsið en síðasta kvöldið borðuðum við öll saman ásamt tveim náungum sem vinna á þingbókasafninu í Washington. Allavega annar þeirra er með mjög skandinavískar/íslenskar skoðanir um lífið og tilveruna og kallaði forseta sinn brjálæðing og var ekkert svo feiminn við það. En eftir að við höfðum borðað og skellt okkur aðeins á barinn héldum við auðvitað heim á leið. Á leiðinni í leigubíl fórum við Sigrún Dögg, stórvinkona mín, að tala við heimilisleysingja og gaf ég honum þrjá dollara og hún gaf honum tvær sígarettur. Þegar við ætluðum að elta hina hreinlega fundum við þau ekki. Nú datt okkur ekki annað í hug en að mannskapurinn hafi bara skellt sér upp á hótel og treyst á guð og lukkuna í sambandi við okkur. Við redduðum okkur vissulega og tókum leigubíl upp á hótel með frábærum Pakistana. Í hótelinu beið okkur beiðni um að hringja í ákveðið númer. Við hringdum í það og kom ekki í ljós að fólkið var með gríðarlegar áhyggjur og héldu að það væri búið að bita okkur niður og henda í næsta runna. Gæinn sem var svo kaldur að segja að Bush væri hálfviti vildi hreinlega láta lýsa eftir okkur. Við í öruggasta hverfi borgarinnar fyrir framan lögreglustöð. Aumingja Þorbjörn Broddason prófessorinn með okkur, Hugrún sólargeisli og Stefán gamli voru ekki sátt við okkur. En ég læt þetta nægja í bili. 

Sex í Washington DC

Ég hef nú ekki verið ómyrkur í máli þegar ég hef talað um ríkisstjórnina á blogginu mínu. Hvers vegna geri ég það? Jú ég er ekki sammála stefnu þeirra í mörgum málum og ég get gagnrýnt hana. Það er alveg ofboðslega erfitt hér í Bandaríkjunum að tala illa um stjórn Bush. Í gær sagði starfsmaður þingbókasafnsins í trúnaði að Bush væri einfaldlega brjálæðingur. Hann lét það fylgja með að hann geti ekki sagt þetta opinberlega. En nóg um það. Fyrir framan Hvíta húsið býr kona í tjaldi með mikla herferð gegn stríðsrekstri yfirleitt. Við vorum nokkur sem sýndum henni mikinn áhuga og hlustuðum á hana með athygli. Haldið þið ekki að eftir nokkra stund byrjuðu jakkafataklæddir náungar að vera svolítið mikið nærgönglir og hlustuðu á allt sem við höfðum að segja. Þeir voru með svona agent-drasl í eyranu þannig að ég gruna að þeir séu einhverskonar agentar. Talandi um þjóðfélag sem á að vera þekkt sem frjálst þjóðfélag. 

Ég var bara að heyra það núna að ég hafi víst móðgað einhverja konu í lyftunni í einni byggingu þings Bandaríkjanna. Að einhverjum ástæðum sagði ég tölustafinn sex sem tjah.... flestir vita að þýði annað á ensku. Ætli ég fái ekki sendan reikning fyrir fyrir kjálkaaðgerð fyrir veslings konuna. En það er óþægilegt að skrifa með tölvuna á maganum. Segjum að ég bloggi betur seinna. 


Washington DC

Nú er maður ekki staddur í Reykjavíkinni góðu heldur hef ég takið mér búsetu í höfuðborg Bandaríkjanna í vikutíma. Hér dvel ég ásamt fjölmiðlafræðinemum í Háskóla Íslands í mestu glæpaborg Bandaríkjanna. Að vísu eru þessir glæpir fyrst og fremst framdir í Norðausturhluta borgarinnar en hótelið okkar er í Norðvesturhlutanum. En allavega skelltum við okkur í gær í heimsókn í stærsta bókasafn í heimi. Þar má finna flest alla vitneskju sem hefur verið skrifuð í bók nokkurs staðar í heiminum. Til að mynda fengum við að líta á símaskrá frá Íslandi frá árinu 1941. Þar fletti ég að sjálfsögðu upp á báða afa mína og fann þá að sjálfsögðu. Það var pínulítið skrítið að fletta upp númerið hjá afa minn heitinum í símaskrá frá þeim tíma sem hann var að kynnast ömmu minni. En allavega er heldur illa komið fyrir þessu bókasafni í dag sökum fjárskorts. Allur peningurinn fer í herinn og Írak. Ég velti því fyrir mér hvernig er komið fyrir öðrum ríkisreknum stofnunum hér í Bandaríkjunum. Ég velti því líka fyrir mér hvers vegna í ósköpunum utanríkismál er ekki stærra kosningamál en það er meðal Bandaríkjamanna. For kræing átlád allur peningurinn fer í þetta. Gæinn sem við töluðum við í bókasafninu var mikill andstæðingur núverandi forseta Bandaríkjanna, George W. Bush. Enda virðist það vera tendens að Rebúblikanar veita minni pening til bókasafnsins heldur en Demókratar almennt. 

Hér í  borg eru 60 prósent borgarbúa hörundsdökkir. Það er alveg magnað að vera yfirleitt í minnahlutahóp þegar maður gengur um göturnar eða inn í búð. Þetta hefur maður ekki vanist heima. En í dag skoðum við National Public Radio og verður athugavert að sjá hvort sá sem taki á móti okkur tali eitthvað um fjárskort á þeim bænum. Ég á eflaust eftir að blogga eitthvað meira áður en ég kem heim á ný eldsnemma á þriðjudaginn.  


Gleði gleði gleði, gleði líf mitt er.

Minn gamli góði menntaskóli MH var núna um síðustu helgi að sigra Morfís. Núna fyrr í vetur sigruðu þeir Leiktu betur, spunakeppni framhaldsskólanna. Á morgun mun síðan þessi stórkostlegi skóli keppa í undanúrslitum Gettu betur. Skólinn á mögulega eftir að vinna þrennu. Hefur það gerst áður hjá nokkrum skóla? Það getur eigilega ekki verið miðað við það að MH hefur unnið Leiktu betur hvert ár síðan þeir byrjuðu. 

En allavega til hamingju kæru MH-ingar mínar, bæði núverandi og fyrrverandi. 


Morgunblaðið og Samfylkingin sátu uppi í tré

Samfylkingafólk hefur verið óþreytt að gagnrýna Morgunblaðið vegna ósanngjarnar umfjöllunar þess um flokkinn. Nú les ég ekki Morgunblaðið oft þar sem að ég fæ það ekki heim til mín og þar með ekki dómbær í máli þessu en ætla samt að tjá mig pínulítið um þetta. Morgunblaðið og þá sérstaklega Agnes Bragadóttir á að hafa skrifað um þjóðsöguna  um sundrungu Samfylkingarinnar sem frétt. Rannsóknarvinnan var af verri endanum eða viðtal við Geir Haarde og Jón Sigurðsson. Ætli þeir hafi farið að njósna á þingflokksfundum Sf? Ætli þeir hafi hlerað símann hjá Ingibjörgu eða Össurri? Ætli síminn hans Jóns Baldvins sé ennþá hleraður? Ætli Fréttablaðið myndi birta slíka frétt um Sjálfstæðisflokkinn eftir viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur? Fréttablaðið á víst að vera verkfæri Samfylkingarinnar....með Þorstein Pálsson í ritstjórastól.

Morgunblaðið á altjént að hafa misnotað aðstöðu sína allsvakalega. Nú kunna einhverjir að segja: ¨Hverjum er ekki sama?¨. Því oftar sem neikvæðar fréttir um ákveðið fyrirbæri birtist í miðlum sem maður les fer manni smám saman ekkert að vera sama. Óákveðnir kjósendur sem fá þessar fréttar í andlitið á sér eru þar með ólíklegri og ólíklegri til að kjósa Samfylkinguna. Óheiðarleg framkoma ef satt er. Miðað við orð Ingibjargar Sólrúnar í Íslandi í dag í gær hefur Morgunblaðið óvenju mikil áhrif á það hvað er á dagskrá meðal hinna fjölmiðla landsins. Ég hef engar ástæður til að ætla annað en að þetta sé rétt hjá konunni.  Það gerir þetta athæfi Morgunblaðsins ennþá alvarlegri. Hvað skyldi Ólafur Teitur Guðnason segja núna, hann hefur fátt annað gert en að hrósa blaðinu í bókinni ¨Fjölmiðlar 2005¨.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband